down

Plast öldin

21, Sep 2019

Til að byrja með var það framleiðsla tengd stríðsrekstri sem að hélt uppi vexti iðnaðarins þar sem plast var notað í allt frá farartækjum til ratsjáreinangrunar. Við lok seinni heimstyrjaldarinnar 1945 blasti við hrun í iðnaðnum og finna þurfti nýjan markað.

Það var þá sem athyglinni var beint að fjöldaframleiddum neysluvörum fyrir almenning. Þessi vöruflokkur hafði óendanlega möguleika og hafði mikil áhrif á líf og neysluvenjur almennings til dæmis í tengslum við mat. Gott dæmi er Tupperware sem kemur á Bandaríkjamarkað árið 1946 og veldur straumhvörfum í bandarískri dægurmenningu með Tupperware partýum þar sem konur seldu konum vörur. Stofnandi fyrirtækisins Earl Tupper fann upp lokið á Tupperware vörunum sem var bylting á þessum tíma. Hugmyndina fékk hann frá málningardósalokum en með sveigjanleika plastsins að leiðarljósi gat hann endurhannað það fyrir Tupperware.  Vörurnar lifa ennþá góðu lífi þar sem helstu eiginleikar plastsins njóta sín; óbrjótanlegt, létt, sveigjanlegt, ryðfrítt og ódýrt.

Plastpokinn (úr polyethylene) kemur svo fram á sjónarsviðið á sjötta áratugnum. Það er því ekki svo langt síðan þetta efni sem hjúpað var dýrðarljóma varð partur af okkar daglega lífi. En væntanlega datt engum í hug að þetta stórbrotna efni gæti verið ein mesta umhverfisógn okkar tíma.