BRIM

Það er margt hægt að gera á Eyrarbakka

Röltu um þorpið, kíktu á sjóminjasafnið, fáðu þér kaffi og köku á Rauða Húsinu, fáðu þér sæti bakvið gamla frystihúsið og horfðu á hafið. Farðu í gönguferð í fjörunni, skoðaðu HÚSIÐ sem var byggt árið 1765, komdu við í sjoppunni. Röltu um í Hallskoti þar sem skógræktarfélag Eyrarbakka hefur ræktað upp sannkallaðan unaðsreit. Fáðu þér göngutúr á sjávarvarnargarðinum og njóttu þannig hafs og byggðar. Komdu við á Konubókastofu eða skoðaðu gömlu innsiglingarmerkin og svo er nauðsynlegt að heimsækja Laugabúð.

Einstakt þorp með langa sögu

Eyrarbakki á sögu allt aftur til ársins 950 og þá sem Eyrar. Saga Eyrarbakka er mikil og löng. Bjarni Herjólfsson frá Drepstokki á Eyrarbakka sigldi þaðan og að Vínlandi (Ameríku), en sporgöngumaður hans var Leifur heppni sá er fyrstur nam Vínland. Einokunarverslun Dana var á Eyrarbakka með verslunarhúsum og faktorshúsi sem í dag er safn.

Sjávarþorpið Eyrarbakki á sína sögu, sögu framfara, atvinnu og harmleikja. Þorpið sem eitt sinn stóð til að yrði höfuðborg Íslands er í dag einstakt þorp þar sem tæplega 600 manns búa, þorp sem hefur náð að halda sérkennum sínum, sínum gömlu húsum og bæjarbrag.

Höfnin á Eyrarbakka hefur frá landnámi verið forsenda byggðar og “stöðu” Eyrarbakka. Frá árinu 1100 fær höfnin á Eyrarbakka aukna þýðingu og verður helsta höfnin á Suðurlandi allt fram að seinni heimstyrjöld. Árið 1988 var tekin í notkun brú yfir Ölfusárósa og var þá höfnin á Eyrarbakka aflögð.

Fjaran á Eyrarbakka er tvískipt, austan við bryggjuna er hraunfjara sem mjög fallegt er að ganga og tilvalið að ganga þá leið í átt að Stokkseyri.

Vestan við höfnina er sandfjaran sem er vinsælt útivistarsvæði og tilvalin til göngu. Á leiðinni niður að ósi Ölfusár er sandvarnargarðurinn og svo Óseyrarbrú þar sem finna má veitingastaðinn Hafið bláa.

Bryggjan á Eyrarbakka hefur einstaka staðsetningu en ef haldið er í hásuður nákvæmlega frá bryggjunni á Eyrarbakka er siglt yfir opið úthafið og ekki komið að landi fyrr en við jaðar Suðurskautslandsins. Nánar tiltekið á hinni ísi þöktu Lyddan eyju undan strönd Coats lands á Suðurskautslandinu hinu meira, í 15.329 km fjarlægð. Ef 1.782 km er bætt við í sömu stefnu mun ferðalangurinn standa á sjálfu Suðurheimsskautinu í 17.111 km fjarlægð frá bryggjunni á Eyrarbakka.

Skógræktarfélag Eyrarbakka er með skógræktar og útivistarsvæði í Hallskoti sem er ofan við þorpið. Svæðið er opið allt árið. Fuglafriðlandið í Flóa er einnig ofan við þorpið og rétt við Hallskot er góð aðstaða til fuglaskoðunar.

Það er tíma vel varið að rölta um þorpið, kíkja inn á Sjóminjasafnið og að skoða Húsið. Konubókastofu er áhugavert að heimsækja, en safnið geymir ritverk íslenskra kvenhöfunda. Laugabúð er opin flestar helgar að sumri og fram eftir hausti. Rauða Húsið rekur veitingastað og Bakki er sjoppa og verslun. Einnig er tilvalið að koma við á Hafinu Bláa við enda Óseyrarbrúar eða líta við á Stokkseyri, þar sem finna má veitingastað, kaffihús og verslun.