BRIM

Plast er efni sem end­ist afar lengi og er því hent­ugt til ýmissa nota. Einmitt þessi eig­in­leiki þess gerir það hins vegar ein­stak­lega óhent­ugt sem einnota efni. Vörur úr plasti sem hent er eftir örstutta notkun geta enst í hund­ruð ára sem úrgang­ur.Plast hverfur nefnilega ekki eða eyðist heldur brotnar niður í smærri og smærri hluta og verður að endingu að örplasti. Þessa plastmengun verðum við að stöðva og það með öllum tiltækum ráðum.

Þegar ég varð ráðherra umhverfismála ákvað ég að leggja mitt lóð á vogarskálarnar í þeirri baráttu. Ég hef beitt mér á alþjóðavettvangi – umhverfisráðherrar Norðurlandanna kölluðu til að mynda í sameiginlegri yfirlýsingu á fundi sínum hér í Reykjavík í vor eftir nýjum alþjóðlegum samningi til að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið. Ég hef einnig beitt mér hér heima með því að ráðast í aðgerðir.

 

Þegar hafa verið samþykkt á Alþingi lög sem gera verslunum óheimilt að afhenda plastburðarpoka frá og með 1. jan 2021. Af öðrum tillögum sem ég fékk frá sérstökum samráðsvettvangi um plastmálefni og þegar hafa komið til framkvæmda má nefna átaksverkefni Umhverfisstofnunar til að auka meðvitund fólks um að draga úr notkun á einnota plastvörum og viðurkenningar fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir.

Meðal þess sem er fram undan er frumvarp til breytinga á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem ég legg fram á Alþingi næsta vor. Þar verður meðal annars kveðið á um bann við tilteknum einnota plastvörum, svo sem eyrnapinnum, plasthnífapörum, plastdiskum, sogrörum og matar- og drykkjarílátum úr frauðplasti. Einnig fól umhverfis- og auðlindaráðuneytið Sjávarlíftæknisetrinu BioPol sem dæmi að vinna rannsókn á losun örplasts á Íslandi þar sem meðal annars skyldi skoðað eftir hvaða leiðum plastið berst til sjávar. Sú vinna stendur yfir.

Plast­vand­inn er stór og við verðum að taka hann alvar­lega. Fræðsla um plast og mögulega skaðsemi þess er mikilvæg og vert að fagna því frumkvæði sem sýnt er með kvikmyndahátíðinni Brim.